Rómverjabréfið
6-7 Kæru vinir í Róm, þið eruð í hópi þeirra sem Guð elskar. Jesús Kristur hefur einnig kallað ykkur til að verða Guðs börn og tilheyra hans heilögu þjóð. Náð og friður Guðs föður og Drottins Jesú Krists sé með ykkur öllum.
10 Ég vil að þið vitið að ég bið Guð stöðugt um að gefa mér tækifæri til að koma til ykkar. 11-12 Ég þrái að hitta ykkur svo ég geti gefið ykkur eitthvað, sem styrkir trú ykkar á Drottin, og til að uppörvast með ykkur í trúnni.
13 Kæru vinir, ég vil að þið vitið að oft hef ég ætlað að koma einhverju góðu til leiðar, á sama hátt og í öðrum kristnum söfnuðum meðal heiðinna þjóða. 14 Ég er í mikilli skuld við ykkur og alla aðra, hvort sem það eru menningarþjóðir eða ekki, bæði við menntaða og ómenntaða. 15 Ég er því fyrir mitt leyti reiðubúinn að koma og boða fagnaðarerindið, einnig ykkur sem eruð í Róm.
21 Mennirnir vissu af Guði, en þó vildu þeir hvorki viðurkenna hann né tilbiðja né heldur þakka honum fyrir daglega umhyggju hans. Ekki leið á löngu uns þeir fóru að gera sér heimskulegar hugmyndir um Guð og hvers hann vænti af þeim. Afleiðingin varð sú að þeir blinduðust í heimsku sinni og lentu á villigötum. 22 Þeir töldu sig ekki þurfa á þekkingu frá Guði að halda og urðu því heimskingjar. 23 Í stað þess að tilbiðja hinn dýrlega, eilífa Guð, bjuggu þeir sér til goð sem líktust fuglum, ferfætlingum, skriðdýrum og dauðlegum mönnum.
24 Þess vegna hefur Guð gefið þeim lausan tauminn og leyft þeim að svala girndum sínum í afskræmdu kynlífi og gera hvað sem þá langaði til, einnig að meðhöndla líkama hvers annars á svívirðilegan og viðbjóðslegan hátt. 25 Í stað þess að trúa því sem þeir vita að er sannleikurinn um Guð, kjósa þeir að trúa lyginni! Afleiðingin er sú að þeir tilbiðja það sem Guð hefur skapað, í stað þess að tilbiðja Guð, skaparann.
26 Þess vegna hefur Guð ofurselt mennina svívirðilegum girndum. Þeir ganga jafnvel svo langt að konurnar snúast gegn eðli sínu og leita kynferðislegrar fullnægju hver með annarri. 27 Sama er að segja um karlmennina. Í stað þess að hafa eðlileg mök við konurnar, brenna þeir af girnd hver til annars og lifa í skömm hver með öðrum. Af þessu hafa þeir uppskorið þá bölvun sem þeir eiga sannarlega skilið. 28 Þar eð mennirnir höfnuðu Guði með þessum hætti og vildu ekki við hann kannast, lét hann þá fara sína leið, svo að þeir gætu gert allt það sem illska þeirra gat fundið upp á. 29 Og þeir urðu ranglátir, vondir, ágjarnir, hatursfullir, öfundsjúkir, manndráparar, þrasgjarnir, lygnir og bitrir. 30 Þeir tala illa hver um annan og hata Guð, eru hrokafullir, gorta af sjálfum sér, finna sífellt upp á nýjum leiðum til að syndga og eru foreldrum sínum óhlýðnir. 31 Þeir misskilja hver annan, eru heimskir, óáreiðanlegir, kærleikslausir og miskunnarlausir. 32 Þeir vita vel að fyrir þessa glæpi hefur Guð kveðið upp yfir þeim dauðadóm en samt halda þeir áfram á sömu braut og hvetja aðra til að gera hið sama.
Rómverjabréfið 2 ->