4 Þá grét ég af vonbrigðum, vegna þess að hvergi nokkurs staðar fannst neinn, sem var verður þess að opna hana og segja okkur hvað í henni stæði.
5 Þá sagði einn af öldungunum tuttugu og fjórum við mig: „Hættu að gráta og taktu eftir! Ljónið af Júda ætt, afkomandi Davíðs, hefur sigrað og sannað að hann er verðugur þess að brjóta þessi sjö innsigli og opna bókina.“
6 Þá leit ég upp og sá lamb sem stóð frammi fyrir öldungunum tuttugu og fjórum, frammi fyrir hásætinu og verunum fjórum og ég sá að á lambinu voru sár, sem eitt sinn höfðu leitt það til dauða. Það hafði sjö horn og sjö augu, táknuðu þau hinn sjöfalda anda Guðs, sem sendur er út um allan heiminn. 7 Lambið gekk nú fram og tók við bókinni úr hægri hendi þess sem sat í hásætinu, 8 og þá krupu öldungarnir tuttugu og fjórir frammi fyrir því. Hver öldungur um sig hafði hörpu og gullskál fulla af reykelsi – en það eru bænir þeirra sem trúa á Guð. 9 Og þeir sungu nýjan söng með þessum orðum: „Þú ert verðugt að taka við bókinni, brjóta innsigli hennar og opna hana, því að þér var slátrað og með blóði þínu keyptir þú fólk af öllum þjóðum, Guði til eignar. 10 Allt þetta fólk hefur þú leitt inn í ríki Guðs og gert það að prestum hans og þeir munu ráða ríkjum á jörðinni.“
11 Þá heyrði ég í milljónum engla, sem voru umhverfis hásætið, verurnar fjórar og öldungana, 12 og þeir sungu af miklum þrótti: „Lambið er verðugt! Lambið, sem slátrað var, er verðugt að fá máttinn, ríkdóminn, viskuna, kraftinn, heiðurinn, dýrðina og lofgjörðina.“
13 Þá heyrði ég alla, sem eru á himni og jörðu og einnig hina dauðu sem eru í jörðinni og hafinu, hrópa og segja: „Blessunin, heiðurinn, dýrðin og mátturinn tilheyra honum, sem í hásætinu situr, og lambinu um alla eilífð.“ 14 Verurnar fjórar sögðu: „Amen!“ Og öldungarnir tuttugu og fjórir féllu fram og tilbáðu.
<- Opinberun Jóhannesar 4Opinberun Jóhannesar 6 ->