Link to home pageLanguagesLink to all Bible versions on this site
55
1-2  Heyr bæn mína, ó Guð! Snú þér ekki frá þegar ég ákalla þig. 3 Hlustaðu á ákall mitt. Ég andvarpa og græt í sorg minni.

4 Óvinir mínir æpa á mig, hóta að drepa mig. Þeir umkringja mig og brugga mér banaráð, öskra á mig í hamslausri reiði. 5-6  Ég er lamaður af ótta, fullur örvæntingar. Hvílík skelfing! 7 Ó, að ég hefði vængi eins og fuglinn! Þá mundi ég fljúga burt og leita skjóls. 8 Ég mundi svífa langt og leita skjóls í eyðimörkinni, 9 flýja á öruggan stað, laus úr allri hættu.

10 Ó, Drottinn, ruglaðu þá í ríminu! Sérðu ekki kúgunina sem viðgengst? 11 Þeir vakta borgina daga og nætur, ganga múrana og skima eftir óvinum. En neyðin er innandyra, því að ofbeldi og svik eru í borginni, 12 morð og gripdeildir.

13 Ekki var það óvinur minn sem ofsótti mig – það gæti ég þolað. Þá hefði ég falið mig um stund. 14 En það varst þú, vinur minn og félagi. 15 Við sem vorum alúðarvinir og gengum saman í Guðs hús.

16 Dauðinn taki þá og dragi þá til heljar, því að illska er í húsum þeirra, synd í hjörtum þeirra.

17 En ég hrópa til Guðs, og hann mun frelsa mig! 18 Kvölds og morgna og um miðjan dag sárbæni ég Guð. Ég veit að hann heyrir til mín og mun svara mér. 19 Þótt óvinir mínir séu margir, mun hann samt frelsa mig og gefa mér frið. 20 Sjálfur Guð – sem er frá eilífð – mun svara mér, en óvinir mínir, breytast ekki og óttast ekki Guð.

21 En vinur minn, sveik mig og ofsótti – rauf heit sitt. 22 Orðin á tungu hans voru ljúf og blíð en hjartað fullt af hatri.

23 Varpaðu áhyggjum þínum á Drottin, hann ber umhyggju fyrir þér. Hann mun aldrei láta trúaðan mann verða valtan á fótum. 24 Guð mun varpa óvinum mínum til heljar, til dánarheima. Morðingjar og svikarar munu ekki ná háum aldri. En ég treysti þér, að þú leyfir mér að lifa.

<- Sálmarnir 54Sálmarnir 56 ->