3 Verið ekki eigingjörn! Sækist ekki eftir því að vaxa í áliti hjá öðrum. Verið auðmjúk. Haldið ykkur ekki betri en aðra. 4 Hugsið ekki aðeins um eigin hag, heldur sýnið öðrum áhuga og því sem þeir hafa fyrir stafni.
5 Hafið sama huga og Jesús Kristur hafði. 6 Þótt hann væri Guð, þá krafðist hann þess ekki að fá að halda rétti sínum sem Guð, 7 heldur lagði til hliðar mátt sinn og dýrð, varð maður og gekk um sem þjónn.
8 En auðmýkingu hans var ekki þar með lokið. Hann gekk svo langt að deyja á krossi, eins og glæpamaður. 9 Einmitt þess vegna hóf Guð hann upp til hæstu himna og gaf honum nafn, sem hverju öðru nafni er æðra. 10 Svo að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné krjúpa, á himni, jörðu eða undir jörðinni, 11 og hver tunga játa að Jesús Kristur er Drottinn, Guði föður til dýrðar.
12 Kæru vinir, ég man að meðan ég var hjá ykkur, þá fóruð þið fúslega eftir ráðleggingum mínum. Og fyrst þið eruð frelsuð, þá hljótið þið nú, að mér fjarverandi, að ástunda hið góða af enn meiri áhuga en áður. Þið hljótið einnig að heiðra Guð og hlýða honum heilshugar og halda ykkur frá öllu því sem honum er á móti skapi. 13 Guð hefur þau áhrif á ykkur að þið bæði viljið og framkvæmið það sem honum er þóknanlegt.
14 Hvert sem starf ykkar er, þá gætið þess að kvarta hvorki né deila, 15 því að þá hefur enginn ástæðu til að tala illa um ykkur. Lifið hreinu, saklausu lífi, eins og börn Guðs, í myrkum heimi óheiðarleika og miskunnarleysis. Þið eruð leiðarljós sem á að vísa öðrum veginn til himins.
16 Ég hvet ykkur til að halda fast við orð lífsins, því þá hef ég tilefni til að gleðjast þegar Kristur kemur aftur. Þá hefur starf mitt og erfiði ykkar á meðal, ekki verið til einskis. 17 Jafnvel þótt blóði mínu yrði úthellt við þjónustu mína, við trú ykkar og mér fórnað – svo ég noti líkingu, það er að segja ef ég ætti að deyja fyrir ykkur – þá mundi ég samt geta glaðst og samglaðst ykkur. 18 Þið ættuð einnig að gleðjast yfir slíku og samgleðjast mér, að ég skuli hafa þau forréttindi að mega deyja fyrir ykkur.
25 Mér fannst rétt af mér að senda Epafrodítus aftur til ykkar. Þið senduð hann til að bæta úr þörf minni og ég get sagt ykkur að við urðum góðir vinir, störfuðum saman og stóðum hlið við hlið í baráttunni. 26 Ég sendi hann nú aftur til ykkar, því að hann hefur orðið svo mikla heimþrá og langar að sjá ykkur á ný. Hann varð mjög leiður þegar hann vissi að þið hefðuð frétt að hann hefði veikst. 27 Reyndar varð hann svo hættulega veikur að hann var nær dauða en lífi, en Guð miskunnaði bæði honum og mér, svo að ég þyrfti ekki að bera sorg hans vegna, ofan á allt annað.
28 Þrá ykkar eftir honum varð mér því sterk hvatning til að senda hann aftur heim. Ég veit að þið fagnið honum og það gleður mig. 29 Takið á móti honum með fögnuði í nafni Drottins og sýnið honum heiður. 30 Hann hætti lífi sínu í þjónustu Krists og var í dauðann kominn er hann reyndi að gera fyrir mig, það sem þið gátuð ekki vegna fjarveru ykkar.
<- Filippíbréfið 1Filippíbréfið 3 ->