Link to home pageLanguagesLink to all Bible versions on this site
20
Dæmisagan um verkamennina í víngarðinum
1 „Hér er enn ein dæmisaga um himnaríki: Landeigandi nokkur fór að heiman snemma morguns að fá verkamenn til uppskerustarfa. 2 Hann samdi við þá um venjuleg daglaun og að því búnu hófu þeir vinnuna. 3 Tveim stundum síðar gekk hann aftur niður í bæinn og sá þá menn á torginu iðjulausa. 4 Þessa menn sendi hann einnig út á akurinn og sagðist mundu borga þeim sanngjörn laun. 5 Hann fór einnig út um hádegið og klukkan þrjú, og sama sagan endurtók sig. 6 Klukkan fimm síðdegis var hann aftur staddur í bænum og sá þá enn nokkra sem höfðu ekkert fyrir stafni. „Af hverju eruð þið iðjulausir?“ spurði hann. 7 „Við höfum ekki fengið neina vinnu,“ svöruðu þeir. „Farið þá og hjálpið hinum sem eru að vinna á ökrum mínum,“ sagði hann. 8 Um kvöldið bauð hann gjaldkera sínum að kalla á mennina og greiða þeim launin og byrja á þeim sem komu síðastir. 9 Þeir komu og fengu full daglaun hver um sig. 10 Þegar hinir, sem byrjað höfðu fyrr um daginn, komu að ná í sín laun, bjuggust þeir við að fá miklu meira, en þeir fengu sömu upphæð.

11-12  Þá mótmæltu þeir og sögðu: „Þessir náungar unnu aðeins eina klukkustund, en samt hefur þú greitt þeim jafnmikið og okkur sem höfum stritað allan daginn í þessum hita.“ 13 „Kæri vinur, ég hef ekki beitt þig rangindum!“ sagði maðurinn við einn þeirra. „Þú samþykktir að vinna allan daginn fyrir venjuleg daglaun, var ekki svo? 14 Taktu þetta og síðan máttu fara. Mig langar til að borga þessum síðustu jafnmikið og þér. 15 Má ég ekki gefa peningana mína þeim sem ég vil? Er það samningsbrot? Eða ertu öfundsjúkur af því að ég er góðsamur?“ 16 Hinir fyrstu verða oft síðastir og þeir síðustu fyrstir.“

Jesús segir fyrir í þriðja sinn um dauða sinn og upprisu
17 Á leiðinni til Jerúsalem tók Jesús lærisveinana tólf afsíðis, 18 til þess að segja þeim hvað biði hans er hann kæmi til borgarinnar.

19 „Ég verð svikinn í hendur æðstu prestanna og leiðtoganna, og þeir munu dæma mig til dauða. Síðan munu þeir afhenda mig rómversku yfirvöldunum. Ég verð hæddur og krossfestur, en á þriðja degi mun ég rísa upp frá dauðum.“

Salóme biður um greiða
20 Móðir þeirra Jakobs og Jóhannesar Sebedeussona kom þá með þeim til Jesú, hneigði sig og bað hann að gera sér greiða.

21 „Hvað vilt þú?“ spurði hann. Hún svaraði: „Viltu leyfa þessum sonum mínum að sitja sínum hvorum megin við þig þegar þú sest í hásæti þitt?“ 22 „Þú veist ekki um hvað þú biður“ svaraði Jesús, sneri sér að Jakobi og Jóhannesi og spurði: „Getið þið drukkið þann beiska bikar sem ég tæmi innan skamms?“ „Já, það getum við!“ svöruðu þeir. 23 „Þið fáið sannarlega að drekka hann,“ sagði Jesús. „En það er ekki mitt að segja hverjir eiga að sitja mér við hlið, það er föður míns að ákveða.“

24 Þegar hinir tíu heyrðu hvað Jakob og Jóhannes höfðu beðið um, urðu þeir gramir. 25 Jesús kallaði þá til sín og sagði: „Konungar þjóðanna eru harðstjórar og embættismenn þeirra láta fólkið kenna á valdi sínu. 26 Þessu er öfugt farið um ykkur. Sá ykkar sem vill verða leiðtogi, verður að þjóna hinum, 27 og sá sem vill verða fremstur, verður að þjóna eins og þræll. 28 Verið eins og ég, Kristur, sem kom ekki til að láta þjóna mér heldur til að þjóna öðrum og gefa líf mitt til lausnar fyrir marga.“

Tveir blindir menn fá sjón
29 Þegar Jesús og lærisveinarnir fóru frá Jeríkó fylgdi þeim mikill mannfjöldi. 30 Við veginn út úr bænum sátu tveir blindir menn. Þegar þeir heyrðu að Jesú ætti leið þar um fóru þeir að hrópa og kalla:
„Herra, sonur Davíðs konungs, hjálpaðu okkur!“

31 Mannfjöldinn skipaði þeim að þegja, en þá hrópuðu þeir enn hærra.

32-33  Jesús nam staðar og kallaði til þeirra: „Hvað viljið þið að ég geri fyrir ykkur?“

„Herra,“ hrópuðu þeir, „gef okkur sjónina!“

34 Jesús kenndi í brjósti um þá og snerti augu þeirra. Við það fengu þeir jafnskjótt sjónina og fylgdu honum.

<- Matteus 19Matteus 21 ->