5 Ég er vínviðurinn, þið eruð greinarnar. Sá sem lifir í mér og ég í honum, hann ber mikinn ávöxt, en án mín getið þið alls ekkert gert. 6 Þeim sem hefur yfirgefið mig, verður kastað burt eins og ónýtum greinum. Þeim er síðan safnað saman og brennt. 7 Ef þið eruð í mér og hlýðið boðum mínum, þá biðjið um hvað sem þið viljið og það mun veitast ykkur! 8 Þeir sem eru sannir lærisveinar mínir, bera mikinn ávöxt og verða föður mínum til dýrðar.
9 Eins og faðirinn hefur elskað mig, hef ég elskað ykkur, verið því stöðugir í elsku minni. 10 Ef þið hlýðið mér, verðið þið stöðugir í elsku minni, eins og ég hlýði föður mínum og lifi í elsku hans. 11 Þetta segi ég ykkur, svo að fögnuður minn fylli ykkur – svo að gleði ykkar verði fullkomin. 12 Ég krefst þess af ykkur að þið elskið hver annan jafn innilega og ég elska ykkur. 13 Og nú skal ég segja ykkur hvernig við getum prófað kærleikann: Sá elskar mest, sem fórnar lífi sínu fyrir vini sína. 14 Þið eruð vinir mínir, ef þið gerið eins og ég segi. 15 Ég kalla ykkur ekki framar þjóna, því að húsbóndinn getur ekki treyst þjónum sínum. Þið eruð vinir mínir og því til staðfestingar hef ég sagt ykkur allt sem faðirinn sagði mér.
16 Ekki hafið þið valið mig, heldur hef ég valið ykkur. Ég valdi ykkur til að fara og bera eilífan ávöxt kærleikans, svo að faðirinn veiti ykkur hvað sem þið biðjið hann um í mínu nafni. 17 Þetta býð ég ykkur: Elskið hver annan. 18 Heimurinn mun hata ykkur, en vitið, að hann hataði mig áður en hann hataði ykkur. 19 Ef þið tilheyrðuð heiminum, mundi heimurinn elska ykkur, en vegna þess að ég hef valið ykkur úr heiminum, þá hatar hann ykkur. 20 Munið hvað ég sagði ykkur: Ekki er þjónninn æðri húsbónda sínum – og fyrst þeir hafa ofsótt mig, munu þeir vissulega ofsækja ykkur líka. Hafi þeir hins vegar hlustað á mig, þá munu þeir einnig hlusta á ykkur. 21 Heimurinn þekkir ekki Guð, sem sendi mig, og þar sem þið tilheyrið mér, þá munu þeir ofsækja ykkur.
22 Mennirnir væru án saka, ef ég hefði ekki komið og sagt þeim sannleikann, en nú þekkja þeir hann og hafa því enga afsökun fyrir syndum sínum. 23 Sá sem hatar mig, hatar þar með föður minn. 24 Ef ég hefði ekki gert þessi kraftaverk, hefði heimurinn afsökun, en nú hefur hann séð þau og þó hatar hann bæði mig og föður minn. 25 Þetta er uppfylling orða spámannsins um Krist: „Þeir hötuðu mig án saka.“
26 En ég mun senda ykkur hjálparann, heilagan anda, uppsprettu sannleikans. Hann mun koma til ykkar frá föðurnum og fræða ykkur um mig. 27 En þið verðið einnig að bera mér vitni, því að þið hafið verið með mér frá byrjun.“
<- Jóhannes 14Jóhannes 16 ->