3 Lauslæti, óhreinleiki eða ágirnd á ekki að nefnast á nafn á meðal ykkar. 4 Klúrar sögur, heimskulegt tal og grófir brandarar – slíkt hæfir ykkur ekki. Í stað þess skuluð þið minna hvert annað á gæsku Guðs og verið þakklát. 5 Eitt getið þið verið viss um: Sá sem er lauslátur og lifir í óhreinleika og ágirnd mun ekki fá inngöngu í ríki Krists og Guðs. Hinn ágjarni er í raun og veru hjáguðadýrkandi – hann elskar og tignar lífsgæðin í stað Guðs. 6 Látið ekki blekkjast af þeim sem afsaka þessar syndir, því að reiði Guðs kemur yfir alla sem þær drýgja. 7 Hafið ekkert samband við slíkt fólk, 8 því að þótt myrkrið hafi eitt sinn ríkt í hjörtum ykkar, þá eru þau nú böðuð ljósi Drottins. Líferni ykkar ætti að bera því gleggstan vott! 9 Í ljósi Drottins eflist góðvild, réttlæti og sannleikur.
10 Reynið að skilja hver er vilji Drottins. 11 Takið engan þátt í því sem illt er – verkum myrkursins, þau leiða aðeins til spillingar. Bendið heldur á þau og flettið ofan af þeim. 12 Það sem hinir óguðlegu leggja stund á í leyndum, er svo svívirðilegt, að mér er jafnvel ómögulegt að nefna það á nafn! 13 Þegar þið flettið ofan af þessum hlutum, skín ljósið á syndir þeirra og þær verða augljósar. En þegar þeir sem þannig lifa, sjá hve illa þeir eru á vegi staddir, snúa sumir þeirra sér ef til vill til Guðs og verða börn ljóssins. 14 Um þetta segir Guðs orð: „Vakna þú sem sefur og rís upp frá dauðum og þá mun Kristur lýsa þér.“
15-16 Gætið vel að hegðun ykkar, því við lifum á erfiðum tímum. Verið ekki óskynsöm, heldur skynsöm! Notið til fullnustu hvert það tækifæri sem þið fáið til að gera hið góða. 17 Gerið ekkert í hugsunarleysi en reynið að skilja hver er vilji Drottins og framkvæmið hann. 18 Drekkið ykkur ekki drukkin af víni, því að drykkjuskapur leiðir aðeins til ills, fyllist heldur heilögum anda og látið stjórnast af honum.
19 Ræðið saman um Drottin, vitnið í sálma og söngva, syngið andlega söngva. Syngið og leikið Drottni lof í hjörtum ykkar 20 og þakkið Guði föður fyrir alla hluti í nafni Drottins Jesú Krists.
31 Biblían sýnir ljóslega með eftirfarandi orðum að eiginmaður og eiginkona séu einn líkami: „Þegar maðurinn giftist verður hann að yfirgefa föður sinn og móður, svo að hann geti að fullu og öllu sameinast konunni og þau tvö orðið eitt.“ 32 Ég veit að þetta er torskilið, en sambandið milli Krists og safnaðar hans hjálpar okkur þó að skilja það. 33 Ég endurtek því: Maðurinn verður að elska konu sína sem hluta af sjálfum sér og konan verður að gæta þess að heiðra mann sinn og hlýða honum.
<- Efesusbréfið 4Efesusbréfið 6 ->