I. Pétursbréf
1 Frá Pétri, sendiboða Jesú Krists.
2 Kæru vinir, Guð valdi ykkur samkvæmt áætlun sinni til að verða börn sín og helgaði ykkur með heilögum anda til að fylgja Jesú Kristi og fá fyrirgefningu syndanna vegna krossdauða hans. Guð blessi ykkur ævinlega og gefi ykkur frið sinn í ríkum mæli.
7 Erfiðleikar þessir eru aðeins til að reyna trú ykkar – til að prófa hvort hún sé sterk og hrein eins og gull, sem hreinsað hefur verið og reynt í eldi. Trú ykkar er samt miklu dýrmætari en skíragull í augum Guðs. Ef trú ykkar stenst slíka eldraun, mun hún verða ykkur til mikils heiðurs og dýrðar þegar Jesús kemur aftur.
8 Þið hafið aldrei séð hann en elskið hann þó. Og þótt þið hafið aldrei séð hann, trúið þið á hann. Þið munuð fyllast óumræðilegri og himneskri gleði, 9 þegar þið náið takmarkinu með trú ykkar: Frelsun sálna ykkar. 10 Spámennirnir skildu ekki þetta hjálpræði til fulls og þótt þeir hafi skrifað um það, fengu þeir aldrei svör við sumum spurningum sínum. 11 Þeir undruðust það sem heilagur andi, sem í þeim bjó, sagði, því að hann bauð þeim að skrifa niður og lýsa atburðum, sem síðar áttu eftir að gerast í lífi Krists: Þjáningum hans og dýrðinni er hann hlyti að lokum. Þeir hugleiddu hvenær þetta yrði og í lífi hvers.
12 Að lokum fengu þeir að vita að þessir atburðir myndu ekki gerast meðan þeir lifðu, heldur löngu seinna – einmitt á ykkar dögum. Nú loks höfum við fengið að heyra þessi gleðitíðindi flutt á skýran og einfaldan hátt í krafti heilags anda, þess sama anda sem talað hafði til spámannanna. Allt er þetta svo undarlegt og dýrlegt að jafnvel englarnir á himnum þrá að kynnast því betur. 13 Verið því allsgáð og horfið örugg fram til endurkomu Jesú Krists. Þá munuð þið fá að njóta blessunar Guðs í ríkari mæli en nokkru sinni fyrr.
14 Hlýðið Guði, því að þið eruð börn hans. Gætið þess að lenda ekki aftur í sama farinu – ykkar gamla líferni – þegar þið lögðuð stund á hið illa vegna þess að þið þekktuð ekkert betra. 15 Verið nú heilög í öllu sem þið gerið, rétt eins og Drottinn, sem kallaði ykkur í barnahópinn sinn. 16 Það var hann sem sagði: „Verið heilög, því að ég er heilagur.“
17 Munið einnig að faðirinn himneski, sem þið biðjið til, fer ekki í manngreinarálit þegar hann kveður upp dóm sinn. Hann mun dæma allt sem þið gerið af fullkominni réttvísi. Lifið því frammi fyrir honum í auðmýkt og ótta, allt þar til þið farið til himna.
21 Af þessari ástæðu getið þið einmitt treyst Guði, sem reisti Krist frá dauðum og hóf hann í dýrð. Nú getið þið sett von ykkar og trú á hann einan. 22 Og við það að trúa að Kristur gæti frelsað ykkur, hafa sálir ykkar hreinsast af eigingirni og hatri og því getið þið elskað hvert annað innilega af hjarta.
23 Nú lifið þið nýju lífi! Þetta nýja líf var ekki gjöf frá foreldrum ykkar, því að það líf sem þau gáfu ykkur, mun fjara út. Nýja lífið mun vara að eilífu, því að það er frá Kristi, honum sem er orð lífsins, boðskapur Guðs til mannanna. 24 Hið jarðneska líf okkar mun visna eins og grasið, sem gulnar og deyr. Jarðnesk fegurð er eins og blóm, sem visnar og fellur, 25 en orð Drottins mun vara að eilífu. Boðskapur Guðs er fagnaðarerindið, sem þið hafið fengið að heyra.
I. Pétursbréf 2 ->